24.2.2009 | 14:23
Sparnaður í matarinnkaupum
Margar fjölskyldur þurfa nú að skera niður útgjöld sín. Margir hafa misst vinnu og enn fleiri óttast um vinnu sína. Við þessar aðstæður er nauðsynlegt að lækka kostnað heimilisins til að auka ekki við skuldirnar og halda einhvers konar fjárhagslegu frelsi.
Innkaupahættir
Ég er nú bara þannig gerður að ég verð að fá reglulegar áminningar um hvernig ég versla. Ég verð of værukær og latur, og stekk bara í næstu sjoppu og kaupi. Þess vegna tók ég saman nokkrar hugmyndir um innkaupahætti sem geta lækkað kostnaðinn á heimilinu. Ætla að prenta þetta út og líma á ísskápinn.
1. Áður en þú ferð í búðina sestu niður og ákveddu hvað skuli versla. Farðu í ísskápinn og skoðaðu hvað vantar. Veldu aðeins það sem vantar og spurðu þig hvort heimilið þurfi virkilega þessar vörur. Hvað má geyma eða sleppa alveg að versla?
2. Innkaupalistinn virkar þegar þú ferð að versla. Verslaðu aðeins það sem stendur á innkaupalistanum. Þannig hjálpar innkaupalistinn þér að versla ekki ónauðsynlegar vörur á staðnum.
3. Veldu verslun. Ekki fara í næstu tiltæku búð. Veldu ódýrustu verslunina sem þú treystir. Farðu í verslanir sem þú hefur aldrei verslað í og gerðu verðkannanir. Finndu búðirnar þínar. Margir versla pakkamatinn og geymsluvöru í einni verslun, og ferskvöru í annarri.
Skipta innkaupamiðanum niður á verslanir, þe. tilboð allra verslana eru skoðuð og merkt við hvað á að kaupa sérstaklega í Bónus, Krónunni, Nettó etc. (gildir oftast um kjöt og bleiur).
4. Farðu á þínum tíma. Að fara í búðir svöng, þreytt og/eða stressuð ýtir undir óskynsamleg kaup og við viljum versla í flýti. Veldu þér þann dag og tíma sem hentar þér best til að versla í rólegheitum fyrir vikuna.
5. Börnin þurfa athygli. Leyfum börnunum að taka þátt. Haka við vörur á innkaupalistanum, sækja vörur í hillur o.sv.frv. Það er ansi gaman að versla með mömmu og pabba. Aftur á móti ýta þreytt og pirruð börn undir óskynsamleg og óskipulögð kaup. Það er því gott og gaman að hafa einhvern með sem veitir "óþægum börnunum" athygli meðan þú verslar. Rúnta um búðina og jafnvel fara í leiki. "Finna ódýrasta klósettburstann" "Finna ljótasta kexpakkann" "telja gular vörur" o.sv. frv.
6. Gerðu verðsamanburð. Með innkaupalistanum getur þú í rólegheitum skoðað verð á vörum. Ekki endilega taka vörur með afslætti nema hafa skoðað verðin á sambærilegu fyrst. Og skoðaðu verðmun á milli framleiðanda. Þekktur kjúklingaframleiðandi með 40% afslætti er stundum dýrari en óþekktur með engum afslætti. Bleyjur óþekkts merkis geta verið helmingi ódýrari en þekkt.
7. Það er samkeppni milli verslana. Fylgstu með tilboðum þeirra. Geymslumat (dósir, þurrmatur), þvottaefni og klósettpappír má til dæmis kaupa á góðum kjörum í svona tilboðum.
8. Skoðaðu strimilinn. Til langs tíma má spara umtalsverðar fjárhæðir með því að skoða strimilinn. Því miður er oft munur, jafnvel mikill, á hilluverði og á strimli.
9. Ekki kaupa tískuvörur, skartgripi, úr, raftæki, húsgögn og svo frv. á fullu verði. Lágvöruverslanir og outlet verslanir selja sömu vörur, á langtum betra verði. Farðu nokkrar ferðir áður en þú ákveður þig. Skoðaðu B-vöruhornið, en þar má finna skilavörur seldar með verulegum afslætti.
10. Kaupa vörur á útsölum. 30, 40, 50, jafnvel 70% afsláttur er gefinn. Það þarf ekki að kaupa allar gjafirnar viku fyrir jól. Hægt að gera góð kaup í jólagjöfum og leikföngum fyrir börn á útsölum eftir jól. Föt er hægt að kaupa á góðu verði þegar skipt er milli sumar og vetrarvöru.
11. Notaðar vörur eru ekki endilega ónýtar. Til dæmis er Kolaportið er eitt best geymda leyndarmál nískupúkans. Með því að gefa sér tíma má finna þar ótrúlegustu hluti, allt frá kartöflum upp í dýrindis gjafir. Geisladiska- og myndbandamarkaðir selja ónotaða gamla diska og myndir á góðum verðum.
12. Ekkert verð - Stundum vantar verð á vöru sem maður þarf að kaupa. Halda henni til hliðar í körfunni og spyrja á kassa um verðið, þá getur maður hætt við ef varan er of dýr.
Flokkur: Skuldafrelsi | Breytt 5.3.2009 kl. 12:06 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.